Ná Aron og félagar að stöðva Liverpool?

Aron Einar Gunnarsson og félagar mæta Liverpool í dag í …
Aron Einar Gunnarsson og félagar mæta Liverpool í dag í mikilvægum leik. AFP

Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardiff fá heimsókn frá Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta kl. 15 í dag. Bæði lið þurfa nauðsynlega á stigum að halda á sitt hvorum enda töflunnar. 

Liverpool er í öðru sæti með 85 stig, einu stigi minna en topplið Manchester City, sem vann 1:0-sigur á Tottenham í gær. Liverpool má ekki við því að tapa stigum, sérstaklega á móti liðunum í neðri hlutanum. 

Lærisveinar Jürgen Klopp eru búnir að vinna átta síðustu leiki sína í öllum keppnum og er því verðugt verkefni fram undan hjá Cardiff, sem er með sex töp í síðustu átta leikjum sínum. 

Cardiff er í 18. sæti með 31 stig, þremur stigum frá Brighton, sem er í síðasta örugga sæti deildarinnar. Cardiff þarf því á stigum að halda, ætli liðið sér ekki að falla beint niður í B-deildina á nýjan leik. 

Á sama tíma fær Arsenal heimsókn frá Crystal Palace. Arsenal er í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti, en liðið er í fjórða sæti með 66 stig, einu stigi á eftir Tottenham og með jafnmörg stig og Chelsea. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert