Nefnir sex leikmenn sem spila undir getu

Gary Neville og Jamie Carragher.
Gary Neville og Jamie Carragher. Ljósmynd/Skysports.com

Gary Neville fyrrverandi leikmaður Manchester United og nú sparkspekingur á Sky Sports nefnir sex leikmenn United sem eru að spila undir getu.

Neville sá United steinliggja fyrir Everton 4:0 á Goodison Park í gær þar sem leikmenn Manchester-liðsins sá ekki til sólar frá fyrstu mínútu leiksins.

„Það eru fimm sóknarmenn hjá félaginu, Marcus Rashford, Anthony Martial, Romelu Lukaku, Alexis Sánchez og Paul Pogba, sem er nálægt fremstu mönnum. Þetta eru stjörnuleikmenn, sem geta verið bestir í sínum stöðum en allir eru þeir þeir að spila undir getu.

Sánchez, ég veit ekki hvað gerðist með hann. Rashford hefur undanfarnar vikur ekki verið nálægt sínu besta. Lukaku nær sér ekki á strik í stóru leikjunum og þannig hefur það verið hjá honum á undanförnum árum. Pogba lítur núna eins og Pogba þegar hann spilaði undir stjórn José Mourinho, þótt hann hafi verið frábær undanfarna mánuði. Og Martial er kominn til baka eftir meiðsli og ekki hefur hann litið vel út,“ segir Neville.

mbl.is