Odoi spilar ekki meira á tímabilinu

Callum Hudson-Odoi haltrar af velli á Stamford Bridge í kvöld.
Callum Hudson-Odoi haltrar af velli á Stamford Bridge í kvöld. AFP

Callum Hudson-Odoi, ungstirnið í liði Chelsea og enska landsliðsins, staðfesti eftir leik Chelsea og Burnley í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld að hann spili ekki meira með á tímabilinu.

Odoi, sem er 18 ára gamall, varð fyrir meiðslum í hásin og þurfti að yfirgefa völlinn á 40. mínútu. Í Twitter-færslu eftir leikinn staðfesti leikmaðurinn að tímabilinu sé lokið og að hann ætli að mæta sterkari til leiks á næsta tímabili.

Chelsea varð að sætta sig við 2:2 jafntefli á móti Burnley en stigið dugði liðinu til að komast upp í fjórða sæti deildarinnar.

Tottenham er í 3. sætinu með 67 stig eftir 34 leiki, Chelsea er í 4. sæti með 66 stig eftir 35 leiki, Arsenal hefur 66 stig eftir 34 leiki og Manchester United er með 64 stig eftir 34 leiki.

mbl.is