Vanvirðing við félagið og stuðningsmennina

Viðbrögð Pogba eftir leikinn á Goodison Park í gær.
Viðbrögð Pogba eftir leikinn á Goodison Park í gær. AFP

Paul Pogba segir að leikmenn Manchester United og hann þar á meðal hafi ekki borið virðingu fyrir félaginu né stuðningsmönnum í leiknum gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær þar sem United steinlá á Goodison Park.

„Eins og við spiluðum og mín eigin frammistaða og alls liðsins var vanvirðing,“ segir Pogba í viðtali við Sky Sports.

„Það fór allt úrskeiðis en hugarfarið inni á vellinum verður að breytast. Stuðningsmennirnir vilja viðbrögð frá leikmönnum og eina leiðin til að biðja þá afsökunar er að gefa allt sem við eigum inni á vellinum. Við getum tapað leikjum en þá með góðri frammistöðu og stolti. Þegar þú klæðist þessari treyju þá þarftu að leggja hart að þér og bera virðingu fyrir og sögu þess,“ segir Frakkinn, sem hefur verið slakur með liði United í undanförnum leikjum.

Pogba og félagar fá tækifæri til að rífa sig upp á rassgatinu á Old Trafford á miðvikudagskvöldið þegar þeir taka á móti Englandsmeisturum Manchester City.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert