Gæti verið búinn að skora fleiri mörk

Gylfi Þór fagnar marki sínu gegn United.
Gylfi Þór fagnar marki sínu gegn United. Ljósmynd/Everton

Gylfi Þór Sigurðsson segir að frábær frammistaða liðsins í 4:0 sigrinum á móti Manchester United sýni hvað liðið er fært um að gera.

Gylfi átti frábæran leik gegn United þar sem hann skoraði eitt mark og lagði upp annað og var valinn maður leiksins hjá flestum fjölmiðlum eftir leikinn. Þetta var stærsti sigur Everton á Manchester United í 35 ár.

„Markmiðið núna er að enda tímabilið vel. Við eigum nokkra leiki eftir og ef við spilum vel eins og við gerðum á móti United þá getum við endað í sjöunda sæti,“ segir Gylfi á heimasíðu Everton en liðið er í sjöunda sæti deildarinnar.

„Heilt yfir var þetta góður dagur. Fjögur mörk, héldum marki okkar hreinu og fengum þrjú stig. Þetta var mjög skemmtilegur leikur. Við byrjuðum leikinn mjög vel og það var gott að ná að skora tvö mörk í fyrri hálfleik, halda hreinu og við spiluðum frábæran fótbolta.

Hvað markið sem ég skoraði varðar, þá vildi ég bara hitti boltann eins vel og ég gat, halda honum niðri og það var erfitt fyrir markvörðinn að verja skotið. Ég var líka ánægður með stoðsendingu mína í leiknum,“ sagði Gylfi, sem hefur skorað 13 mörk í deildinni á tímabilinu og gefið 5 stoðsendingar.

„Ég er ánægður með tímabilið hjá mér. Ég gæti verið búinn að skora fleiri mörk en ég held að þú viljir alltaf meira.“




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert