„Í fyrsta skipti á ævinni“

James Milner fagnar marki sínu gegn Cardiff ásamt Jordan Henderson.
James Milner fagnar marki sínu gegn Cardiff ásamt Jordan Henderson. AFP

James Milner baráttujaxlinn í liði Liverpool segist munu halda með Manchester United í fyrsta sinn á ævinni þegar liðið mætir Manchester City í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld.

City er tveimur stigum á eftir Liverpool en á leikinn til góða gegn Manchester United.

„Í fyrsta sinn á ævinni mun ég halda með Manchester United en ég mun ekki horfa á leikinn. Það er svolítið sóun á orku. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég geri. Kannski fer ég út að borða,“ segir Milner en víst er stuðningsmenn Liverpool úti um allan heim munu verða á bandi Manchester United í leiknum en United er í baráttu um að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni og þarf á stigum að halda í þeirri baráttu.

Liverpool hefur aðeins tapað einum leik í deildinni á tímabilinu og sá ósigur leit dagsins ljós á móti Manchester City.

„Það er pirrandi að hugsa að við höfum aðeins tapað einum leik og það getur verið að það dugi ekki til,“ segir Milner, sem varð í tvígang Englandsmeistari með Manchester City á þeim fimm árum sem hann spilaði með liðinu.

„Við þurfum bara að vinna þá leiki sem við eigum eftir. Ef við gerum það en það dugar ekki til þá verðum við bara að taka ofan fyrir City. Manchester City er frábært lið og hefur gert þetta áður. Eina sem við getum gert er að vinna okkar leiki og setja pressu á City.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert