Ole Gunnar vonast eftir sterkum viðbrögðum

Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. AFP

Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri Manchester United vonast eftir sterkum viðbrögðum sinna manna eftir skellinn gegn Everton á páskadag þegar liðið tekur á móti Englandsmeisturum Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu annað kvöld.

„Ég hef trú á mínu liði og mér sjálfum og ég verð tilbúinn að taka þessa áskorun áfram. Leikir eins og á móti Everton geta alltaf litið dagsins ljós en það verða að koma sterk viðbrögð. Þú reynir að vekja viðbrögð eða hvetja til viðbragða. Þetta snýst um að breyta hugarfarinu og ganga úr skugga um að hausinn sé klár vegna þess að menn missa hausinn þegar þeir tapa með þessum hætti,“ sagði Solskjær á fréttamannafundi í morgun.

Þegar Ole Gunnar var spurður hvort hann sé rétti maðurinn í starfið sagði Norðmaðurinn;

„Mig langar að segja já en það er ekki mitt að segja það. Nú er ekki tíminn til að tala um einhverjar allsherjarbreytingar. Manchester City og Liverpool eru einu liðin sem hafa fengið fleiri stig í þeim 18 leikjum frá því ég tók við liðinu. Ég er hrifinn af öllum þessum strákum. Ég elska þá. Þið getið sé Manchester United DNA í mörgum af þessum leikmönnum. En við verðum að fá inn nýja leikmenn og sumir verða að fara.“

Gríðarlega hörð keppni er um sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Tottenham er í 3. sætinu með 67 stig á fjóra leiki eftir, Chelsea er með 67 stig og á þrjá leiki eftir, Arsenal er í fimmta sæti með 66 stig og á fjóra leiki eftir og Manchester United er í sjötta sætinu með 64 stig og á fjóra leiki eftir.

mbl.is