Tottenham getur stigið stórt skref

Son Heung-min og Serge Aurier fagna marki Suður-Kóreubúans.
Son Heung-min og Serge Aurier fagna marki Suður-Kóreubúans. AFP

Tottenham getur stigið stórt skref í áttina að sæti í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu þegar liðið tekur á móti Brighton í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Tottenham er í þriðja sæti deildarinnar með 67 stig, jafnmörg og Chelsea, en á leikinn til góða í kvöld. Arsenal hefur 66 stig og Manchester United 64, bæði eftir jafnmarga leiki og Tottenham.

Brighton er í bullandi fallbaráttu og þarf á stigum að halda en liðið er í 17. sæti og er þremur stigum frá fallsæti. Reiknað er með að Hugo Lloris, markvörður og fyrirliði Tottenham, snúi aftur til leiks í kvöld en hann missti af leiknum gegn Manchester City á laugardaginn vegna meiðsla.

Watford tekur á móti Southampton. Með sigri kemst Watford upp fyrir Everton í 7. sæti deildarinnar en Southampton fer langt með að tryggja tilverurétt sinn í deildinni með sigri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert