Arsenal þarf á stigum að halda í kvöld

Alexandre Lacazette framherji Arsenal.
Alexandre Lacazette framherji Arsenal. AFP

Arsenal getur með sigri gegn Wolves í kvöld komist upp í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar en liðin eigast við á Molineux Stadium.

Arsenal er í 5. sæti deildarinnar með 66 stig og með sigri kemst það upp fyrir Chelsea sem er í 4. sætinu með 67 stig. Úlfarnir sigla lygnan sjó í 10. sætinu en með sigri kemst það upp í 7. sætið.

Arsenal verður án Aaron Ramsey og Denis Suarez sem eru meiddir og þá verður ástand Granit Xhaka kannað fyrir leik en hann hefur verið að glíma við meiðsli. Allir eru hins vegar klárir í slaginn hjá Úlfunum.

Wolves hefur ekki tekist að vinna Arsenal í síðustu 16 deildarleikjum liðanna en Úlfarnir fögnuðu síðast sigri gegn Arsenal á Highbury árið 1979. Úlfarnir hafa verið sterkir á heimavelli en þeir eru taplausir í síðustu níu heimaleikjum í öllum keppnum.

Arsenal hefur vegnað illa á útivöllum á leiktíðinni en liðið þarf svo sannarlega á stigum að halda í kvöld til að eygja möguleika á sæti í Meistaradeild Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert