„Sagði hann þetta?“

Pep Guardiola og Ole Gunnar Solskjær.
Pep Guardiola og Ole Gunnar Solskjær. AFP

Það verður mikið undir á Old Trafford í kvöld þegar Manchester-liðin, United og City, leiða saman hesta sína í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Með sigri kemst Manchester City í toppsæti deildarinnar en United er í baráttu um að ná sæti í Meistaradeildinni og þarf svo sannarlega á stigunum að halda. Stuðningsmenn Liverpool úti um víða veröld þurfa að gerast stuðningsmenn United í kvöld en misstígi City sig í leiknum er Liverpool komið í dauðafæri á að landa fyrsta Englandsmeistaratitli sínum í 29 ár.

Pep Guardiola, stjóri City, var ekki ánægður með ummæli kollega síns, Ole Gunnars Solskærs hjá United.

Solskjær varaði sína menn við því að þeir yrðu sparkaðir niður í leiknum. „Það verða brot. Þeir munu stíga á ökkla ykkar og hæla og spaka í ykkur,“ sagði Solskjær.

„Sagði hann þetta? Með boltann 65% eða 70%. Hvernig förum við að því. Mér líkar það ekki. Lið mitt er ekki þannig byggt, alls ekki,“ sagði Guardiola. „Í tíu ár sem þjálfari hef ég aldrei undirbúið lið mitt fyrir leiki með því að hugsa svona. Aldrei.“

Manchester City hefur á tímabilinu fengið 38 gul spjöld og eitt rautt spjald en Manchester United hefur fengið 64 gul spjöld og fjögur rauð spjöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert