Huddersfield en ekki Barcelona

Jürgen Klopp og Virgil van Dijk vilja greinilega ekki að ...
Jürgen Klopp og Virgil van Dijk vilja greinilega ekki að varalesarar uppgötvi hvað fer þeim á milli. Þeir búa sig undir að mæta Huddersfield og Barcelona á næstu dögum. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool kveðst ekkert vera farinn að hugleiða viðureignina við Barcelona í Meistaradeild Evrópu næsta miðvikudag því mikilvægara verkefni sé fram undan annað kvöld þegar Liverpool fær  botnlið Huddersfield í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni.

Manchester City komst aftur á topp deildarinnar með sigrinum á Manchester United í gærkvöld og nú þarf Liverpool að vinna þrjá síðustu leiki sína og treysta á að City misstígi sig einhvers staðar.

„Við höfum haft nægan tíma til að jafna okkur eftir síðasta leik og við munum hafa nægan tíma til að jafna okkur fyrir næsta leik. Barcelona skiptir engu máli í samhengi við leikinn á föstudagskvöldið,“ sagði Klopp á  fréttamannafundi í dag.

Hann sagði mögulegt að Dejan Lovren kæmi inn í vörn Liverpool á ný annað kvöld en hann veiktist fyrir leikinn gegn Porto í síðustu  viku og var ekki búinn að jafna sig fyrir leikinn gegn Cardiff á sunnudaginn. Hins vegar væri óvissa með Fabinho og Adam Lallana. Fabinho fór af velli gegn Cardiff, mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður, eftir að hafa fengið höfuðhögg og Lallana hefur verið frá vegna tognunar í síðustu fimm leikjum.

mbl.is