Trúði ekki mínum eigin eyrum

Danny Rose í leik Tottenham og Manchester City í átta …
Danny Rose í leik Tottenham og Manchester City í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. AFP

Danny Rose, bakvörður enska knattspyrnuliðsins Tottenham Hotspur, hefur skorað á forráðamenn úrvalsdeildarinnar til að fara að fordæmi kollega sinna í Hollandi.

Öllum leikjum í hollensku úrvalsdeildinni um næstu helgi hefur verið frestað til þess að gera Ajax kleift að undirbúa sig sem best fyrir viðureignina við Tottenham í undanúrslitum Meistaradeildarinnar en fyrri leikur liðanna fer fram í London á þriðjudagskvöldið kemur.

Eric Gudde forseti hollenska knattspyrnusambandsins sagði að þessi ákvörðun væri tekin með hagsmuni hollenskrar knattspyrnu í heild sinni til hliðsjónar. Ajax er í baráttu við PSV um meistaratitilinn þegar tveimur umferðum er ólokið og það hefði verið ósanngjarnt að bara leik Ajax væri frestað.

„Ég trúði ekki mínum eigin eyrum þegar ég heyrði af þessum hjá Hollendingunum. Það væri gott ef hér á Englandi væri sami skilningur til staðar til að aðstoða okkur. Í raun og veru er þetta ekki Tottenham gegn Ajax. Við erum fulltrúar Englands. Þegar komið er á þetta stig tímabilsins hefur öll þreyta áhrif og allt svona hjálpar. Við viljum vinna Meistaradeildina, allra helst vildi ég að það yrði Tottenham, en við viljum enskan sigur," sagði Danny Rose við BBC.

mbl.is