„Mun aldrei jafna mig“

Conor Coady mun aldrei jafna sig á tapinu gegn Watford ...
Conor Coady mun aldrei jafna sig á tapinu gegn Watford í ensku bikarkeppninni. AFP

Conor Coady, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Wolves, segir að hann muni aldrei jafna sig á tapinu gegn Watford í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar á dögunum. Wolves leiddi 2:0 í leiknum þegar tíu mínútur voru til leiksloka en Watford tókst að jafna metin með tveimur mörkum á síðustu mínútum leiksins.

Gerard Deulofeu tryggði svo Watford sigur í framlengingu og Wolves sat eftir með sárt ennið. „Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá mun ég aldrei jafna mig á þessu tapi. Þetta mun elta mig alla tíð, þetta tap, sem svíður enn þá eins og það hafi gerst í gær,“ sagði Coady í samtali við Telegraph.

„Það var svo erfitt að taka þessu því við vorum svo nálægt þessu. Það sáu það allir hversu nálægt þessu við vorum en við viljum samt sem áður ekki dvelja of lengi við þetta tap. Það var frábært að komast alla leið í undanúrslit ensku bikarkeppninnar en það eina sem við getum gert núna er að læra af þessu og horfa fram veginn,“ sagði Coady.

mbl.is