Sánchez þarf að taka á sig launalækkun

Alexis Sánchez hefur valdið miklum vonbrigðum síðan hann gekk til ...
Alexis Sánchez hefur valdið miklum vonbrigðum síðan hann gekk til liðs við Manchester United árið 2018. AFP

Alexis Sánchez, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, hefur verið orðaður við brottför frá félaginu að undanförnu. Sánchez er launahæsti leikmaður United með 400.000 pund á viku en enskir fjölmiðlar greina frá því að Inter Mílanó sé eina liðið sem hafi áhuga á leikmanninum.

Sánchez er samningsbundinn United til ársins 2022 en hann kom til félagsins frá Arsenal í janúar á síðasta ári. Hann hefur ekki náð sér á strik á Old Trafford en hann verður 31 árs á árinu. Hann hefur einungis byrjað átta leiki í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð þar sem hann hefur skorað 1 mark og lagt upp önnur 3.

Ítalska félagið er ekki sagt tilbúið að gangast við launakröfum leikmannsins og því þarf hann að taka á sig umtalsverða launalækkun, ef hann á að færa sig um set yfir til Ítalíu. Ole Gunnar Solskjær, knattspynustjóri United, er sagður vilja losna við hann.

mbl.is