Sannfærðir um að fá sparkið

Það þarf mikið að gerast svo Maurizio Sarri haldi starfi …
Það þarf mikið að gerast svo Maurizio Sarri haldi starfi sínu hjá Chelsea. AFP

Þjálfarateymi Maurizio Sarri hjá enska knattspyrnufélaginu Chelsea á von á því að Sarri og þjálfarateymið verði látið taka pokann sinn hjá félaginu í sumar en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. 

Sarri tók við stjórnartaumunum hjá Chelsea, síðasta sumar, af Antonio Conte sem var rekinn. Chelsea lagði mikið kapp á að fá Sarri sem stýrði Napoli á síðustu leiktíð en gengi Chelsea á þessari leiktíð hefur valdið vonbrigðum.

Liðið er í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 67 stig þegar þrjár umferðir eru eftir, 22 stigum á eftir toppliði Manchester City. Þá hefur hugmyndafræði Sarri verið harðlega gagnrýnd á tímabilinu.

Enskir fjölmiðlar hafa fjallað um það að leikmenn Chelsea séu sjálfir í vandræðum með að skilja hugmyndafræði ítalska stjórans en það er talið næsta víst að Sarri fái sparkið ef Chelsea tekst ekki að tryggja sér Meistaradeildarsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert