Villa fær annað tækifæri á Wembley

Jed Steer varði tvær vítaspyrnur.
Jed Steer varði tvær vítaspyrnur. Ljósmynd/@ACFCOfficial

Aston Villa leikur til úrslita í umspili um sæti í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, annað árið í röð, eftir sigur á WBA í vítakeppni í seinni leik liðanna í undanúrslitum í kvöld. 

WBA vann seinni leikinn í kvöld á heimavelli, 1:0. Aston Villa vann sinn heimaleik 2:1 og urðu samanlögð úrslit því 2:2. Ekkert var skorað í framlengingunni og réðust úrslitin í vítakeppni, þar sem Aston Villa var sterkari aðilinn. 

Craig Dawson skoraði eina markið í venjulegum leiktíma á 29. mínútu. Chris Brunt fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt hjá WBA á 80. mínútu og léku heimamenn því manni færri alla framlenginguna. Þrátt fyrir það tókst Aston Villa ekki að skora. 

Jed Steer í marki Aston Villa varði tvær fyrstu spyrnur WBA í vítakeppninni og Tammy Abraham skoraði úr fjórða og síðasta víti Villa og tryggði liðinu úrslitaleik á Wembley. Birkir Bjarnason var ekki í leikmannahópi Villa. 

Aston Villa komst einnig í úrslit á síðustu leiktíð en tapaði þá fyrir Fulham, 1:0. Villa mætir annaðhvort Leeds eða Derby í úrslitaleiknum, en þau eigast við á morgun á Elland Road, heimavelli Leeds. Leeds vann útileikinn 1:0 og er því í fínni stöðu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert