Paris SG vill fá Firmino

Roberto Firmino.
Roberto Firmino. AFP

Enskir fjölmiðlar greina frá því að Thomas Tuchel, þjálfari franska meistaraliðsins Paris SG, vilji ólmur fá brasilíska sóknarmanninn Roberto Firmino til liðs við sig frá Liverpool í sumar.

Firmino hefur leikið stórt hlutverk með Liverpool frá því hann kom til félagsins frá þýska liðinu Hoffenheim fyrir fjórum árum. Firmino hefur skorað 16 mörk fyrir liðið í öllum keppnum á leiktíðinni en Liverpool á einn leik eftir, úrslitaleikinn gegn Tottenham í Meistaradeildinni í Madrid 1. júní.

Afar ólíklegt er talið að Liverpool sé tilbúið að selja Brasilíumanninn en hann er gríðarlega vinsæll á meðal stuðningsmanna liðsins og hefur átt stóran þátt í frábæru gengi liðsins á tímabilinu. Firmino hefur glímt við meiðsli síðustu vikurnar en hann ætti að verða klár í slaginn þegar Liverpool mætir Tottenham í úrslitaleiknum.

mbl.is