„Höfum ekki efni á Griezmann“

Antoine Griezmann ætlar sér að yfirgefa Atlético Madrid í sumar.
Antoine Griezmann ætlar sér að yfirgefa Atlético Madrid í sumar. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að félagið hafi ekki efni á því að kaupa framherja Atlético Madrid, Antoine Griezmann, í sumar. Griezmann gaf það út á dögunum að hann ætlaði sér að yfirgefa Atlético Madrid í sumar en hann hefur verið besti leikmaður liðsins, undanfarin ár, en Frakkinn hefur verið sterklega orðaður við Barcelona.

„Stuðningsmenn Barcelona þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur, við erum ekki að fara kaupa Griezmann í sumar því við höfum ekki efni á honum. Við erum vel mannaðir, fremst á vellinum, og höfum ekki áhuga á leikmanninum. Ég er mjög ánægður með leikmannahóp minn,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi City í gær.

Griezmann kom til Atlético Madrid frá Real Sociedad árið 2014 en hann er 28 ára gamall. Hann hefur skorað 15 mörk og lagt upp önnur 9 í 36 leikjum í spænsku 1. deildinni á þessari leiktíð. Þá er hann fastamaður í franska landsliðinu sem varð heimsmeistari í Rússlandi, síðasta sumar, eftir 4:2-sigur gegn Króatíu í úrslitaleik í Moskvu en verðmiðinn á leikmanninum er í kringum 100 milljónir evra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert