Vill ekki snúa aftur til Englands

Álvaro Morata hefur engan áhuga á því að snúa aftur …
Álvaro Morata hefur engan áhuga á því að snúa aftur til Chelsea. AFP

Álvaro Morata, framherji enska knattspyrnufélagsins Chelsea og lánsmaður hjá Atlético Madrid, hefur ekki áhuga á því að snúa aftur til Englands en þetta staðfesti leikmaðurinn á blaðamannafundi á dögunum. Morata er samningsbundinn Chelsea til ársins 2020 en hann kom til félagsins frá Real Madrid árið sumarið 2017.

Morata tókst ekki að slá í gegn á Stamford Bridge og var að lokum lánaður til Atlético Madrid í janúar á þessu ári þar sem hann hefur skorað 6 mörk í 15 leikjum í spænsku 1. deildinni í vetur. Atlético Madrid er með forkaupsrétt á leikmanninum eftir lánsdvöl hans á Spáni en spænska félagið hefur ekki ennþá tekið ákvörðun um það hvort þeir muni kaupa Morata.

„Ég vil vera á Spáni hjá Atlético Madrid og ég ætla mér að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að spila áfram fyrir þetta félag. Ég gerði allt sem ég gat til þess að komast til Atlético Madrid og ég ætla mér að gera allt sem ég get til þess að vera hérna áfram. Ég er ekki að horfa til annarra liða, ég vil bara vera hjá Atlético,“ sagði framherjinn í samtali við spænska fjölmiðla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert