Vill sjá Coutinho aftur á Anfield

Philippe Coutinho lék með Liverpool í fimm ár áður en …
Philippe Coutinho lék með Liverpool í fimm ár áður en hann samdi við Barcelona. AFP

Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool og núverandi sparspekingur hjá Sky Sports, hvetur félagið til þess að reyna fá Philippe Coutinho, sóknarmann Barcelona, aftur á Anfield.

Coutinho var seldur til Barcelona í janúar 2018 fyrir 105 milljónir punda, en spænska félagið gæti endað á að borga Liverpool 142 milljónir punda fyrir þjónustu Coutinho. Brassinn hefur ekki heillað á Nývangi og hefur að undanförnu verið orðaður við brottför frá félaginu.

„Ég ætla ekki að ganga svo langt og segja að Liverpool eigi að leggja höfuðáherslu á það að fá hann en ef það er möguleiki fyrir hendi þá eiga þeir að reyna að fá hann. Ef Barcelona ákveður að selja hann á sanngjörnu verði ætti Liverpool hiklaust að reyna fá hann,“ sagði Carragher í samtali við Liverpool Echo.

„Er hann velkominn aftur á Anfield? Ég er ekki viss en hann ætti að vera það. Ég sé ekki af hverju stuðningsmenn Liverpool ættu ekki að taka vel á móti honum. Það var aðeins baulað á hann á Anfield í Meistaradeildinni vegna þess að hann vildi fara. Liverpool hefur oftast fagnað fyrrverandi leikmönnum sínum, líkt og Xabi Alonso, og það ætti ekki að vera öðruvísi með Coutinho þótt hann hafi viljað fara,“ sagði Carragher ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert