Celtic vill fá Mourinho

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

Skoska knattspyrnuliðið Celtic, sem í dag tryggði sér skoska meistaratitilinn áttunda árið í röð, er sagt hafa boðið José Mourinho að taka við þjálfun liðsins í sumar.

Neil Lennon tók við þjálfun Celtic eftir að Brendan Rodgers fór til Leicester í febrúar. Lennon var ráðinn til að stýra Celtic út leiktíðina en forráðamenn félagsins vilja fá annan þjálfara og er Mourinho efstur á blaði að því er enskir fjölmiðlar greina frá í kvöld.

Mourinho var rekinn frá störfum hjá Manchester United í desember og hefur síðan þá starfað fyrir sjónvarpsstöð í Rússlandi en Portúgalinn vill komast aftur í þjálfun og hver veit nema að það verði hjá Celtic?

mbl.is