De Ligt og Maguire á óskalista City

Harry Maguire gæti yfirgefið Leicester í sumar ef rétt tilboð …
Harry Maguire gæti yfirgefið Leicester í sumar ef rétt tilboð berst í kappann. AFP

Vincent Kompany tilkynnti það í morgun að hann væri á förum frá enska knattspyrnufélaginu Manchester City eftir ellefu ár í herbúðum City. Kompany hefur verið fyrirliði liðsins, undanfarin ár, og stýrt varnarleik liðsins af mikilli yfirvegun.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, ætlar sér að fylla skarðið sem Kompany skilur eftir sig með öflugum miðverði og eru tveir leikmenn efstir á óskalista Spánverjans samkvæmt enskum fjölmiðlum.

Matthijs de Ligt, fyrirliði Ajax, og Harry Maguire, varnarmaður Leicester City, eru leikmenn sem Guardiola horfir til en þeir hafa báðir spilað mjög vel á þessari leiktíð. Maguire hefur verið sterklega orðaður við Manchester United að undanförnu.

De Ligt, sem er aðeins 19 ára gamall, hefur verið orðaður við öll stærstu félög Evrópu en Barcelona er sagt leiða kapphlaupið um varnarmanninn. City ætlar sér sigur í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en það er eini titillinn sem Guardiola hefur ekki skilað í hús á Etihad síðan hann tók við liðinu sumarið 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert