Kante efstur á óskalista PSG

N'Golo Kanté hefur verið spilað út úr stöðu á þessari …
N'Golo Kanté hefur verið spilað út úr stöðu á þessari leiktíð og miðjumaðurinn gæti verið spenntur fyrir því að snúa aftur til Frakklands. AFP

N'Golo Kanté, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Chelsea, er efstur á óskalista franska stórliðsins PSG en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Kanté hefur verið einn besti leikmaður Chelsea síðan hann kom til félagsins frá Leicester árið 2016.

Idrissa Gueye, miðjumaður Everton, var sterklega orðaður við PSG í janúar en franska félagið lagði fram nokkuð tilboð í leikmanninn sem Everton hafnaði. PSG hefur nú snúið sér að Kanté sem á fjögur ár eftir af samningi sínum við Chelsea.

Kanté hefur ekki fengið að spila sína uppáhaldsstöðu á þessari leiktíð undir stjórn Maurizio Sarri en Sarri hefur kosið Jorginho fram yfir Kanté á miðsvæðinu. Sarri hefur verið talsvert gagnrýndur fyrir þessa ákvörðun sína enda Kanté talinn einn besti varnarsinnaði miðjumaðurinn í heiminum í dag.

Kanté, sem er orðinn 28 ára gamall, er franskur en hann lék með Caen í Frakklandi áður en hann gekk til liðs við Leicester árið 2015. Chelsea er á leið í félagaskiptabann og því er félagið ekki spennt fyrir því að selja leikmenn í sumar, án þess að geta fyllt skörð þeirra sem fara en talið er næsta víst að Eden Hazard muni yfirgefa Chelsea í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert