Solskjær fer með United til Noregs

Ole Gunnar Solskjær ætlar til Noregs í sumar.
Ole Gunnar Solskjær ætlar til Noregs í sumar. AFP

Manchester United mun halda til Noregs í sumar og spila þar gegn Kristiansund, liðinu úr gamla heimabæ knattspyrnustjórans Oles Gunnars Solskjær.

Leikurinn mun fara fram 30. júlí á Ullevaal-leikvanginum í Ósló. Kvennalið United mun mæta Vålerenga degi síðar í sömu borg.

„Þessir tveir vináttuleikir eru hluti af því sem verður frábært undirbúningstímabil fyrir karla- og kvennaliðið. Félagið hefur alltaf haft sterka tengingu við Noreg og stuðningsmannafélag okkar á Norðurlöndunum er með einn stærsta og virkasta stuðningsmannahóp okkar. Það er ánægjulegt að við skulum mæta liðinu úr heimabæ Oles og við erum viss um að fá mikinn stuðning á leiknum,“ sagði Ed Woodward, stjórnarformaður United.

Nú er orðið ljóst að karlalið United mun leika við Perth Glory og Leeds í Ástralíu 13. og 17. júlí, gegn Inter í Singapúr 20. júlí, gegn Tottenham í Sjanghæ 25. júlí, gegn Kristiansund og svo gegn AC Milan í Cardiff 3. ágúst.

mbl.is