Þetta eru falsfréttir

Pep Guardiola.
Pep Guardiola. AFP

Forráðamenn enska meistaraliðsins Manchester City neita því að knattspyrnustjórinn Pep Guardiola sé að fara til Ítalíumeistara Juventus.

Ítalskir fjölmiðlar hafa greint frá því að Guardiola hafi samþykkt að taka við þjálfun Juventus og verði kynntur til leiks í næsta mánuði.

City-menn segja að ekkert sé hæft í þessum fréttum. Guardiola vilji vera áfram en undir hans stjórn vann liðið þrefalt heima fyrir á leiktíðinni og Englandsmeistaratitilinn annað árið í röð.

„Sem stjórnarmaður í City var ég hissa að lesa þessar fréttir. Hann er þjálfari okkar og vill vera áfram hjá okkur. Þetta eru allt falsfréttir,“ sagði Alberto Galassi, stjórnarmaður í Manchester City, við Sky Italia.

Juventus leitar að nýjum þjálfara í stað Massimilianos Allegris sem hættir störfum hjá félaginu eftir tímabilið. Hann hefur stýrt liðinu frá 2014 og hefur það unnið Ítalíumeistaratitilinn í öll skiptin, eða fimm sinnum, auk þess að vinna ítölsku bikarkeppnina fjórum sinnum.

mbl.is