United komið í slaginn um Griezmann

Antoine Griezmann.
Antoine Griezmann. AFP

Manchester United hefur sett sig í samband við spænska liðið Atlético Madrid um hugsanleg kaup félagsins á franska landsliðsmanninum Antoine Griezmann að því er fram kemur í enska blaðinu Independent í dag.

Griezmann greindi frá því á dögunum að hann vildi yfirgefa Atlético Madrid og var hann þegar orðaður við Spánarmeistara Barcelona.

Hæstráðendur á Camp Nou eru hins vegar ekki sagðir vera tilbúnir að greiða uppsett verð fyrir Frakkann en verðmiðinn á honum er 108 milljónir evra sem jafngildir um 15 milljörðum króna.

Griezmann, sem er 28 ára gamall, hefur leikið með Atlético Madrid frá árinu 2014.

mbl.is