Lovren þarf að fara

Djen Lovren og Divock Origi gætu báðir yfirgefið Liverpool í …
Djen Lovren og Divock Origi gætu báðir yfirgefið Liverpool í sumar. AFP

Steve Nicol, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpoo, telur að félagið muni losa sig við fjóra stóra leikmenn í sumar. Nocol lék með Liverpool á árunum 1981 til ársins 1994 og á að baki yfir 350 leiki fyrir félagið. Talið er að Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri liðsins, muni selja leikmenn fyrir rúmlega 100 milljónir punda en Nicol telur að stór nöfn muni fara í sumar.

„Divock Origi þarf að fara,“ sagði Nicol í samtali við ESPN. „Hann var magnaður undir lok tímabilsins en þarf samt að fara en hann verður ekki seldur fyrr en félagið fær einhvern í staðinn. Þeir eru þunnskipaðir í fremstu víglínu, sérstaklega í framherjastöðunni, en ég tel samt sem áður að hann verði seldur í sumar. Að sama skapi verður hans alltaf minnst hjá félaginu fyrir afrek sitt gegn Barcelona.“

„Adam Lallana er einn af þeim leikmönnum sem munu kveðja. Hann hefur verið mikið meiddur en þrátt fyrir það hefur hann einfaldlega ekki sýnt nægilega mikið. Hann hefur átt sín augnablik í Liverpool-treyjunni en þau hafa ekki verið nægilega mörg því miður. Nathaniel Clyne fer, hann er ekki í plönum Klopp, og Trent Alexander-Arnold hefur eignað sér hægri bakvarðastöðuna. Joe Gomez getur einnig leyst stöðuna og Clyne fer.“

„Dejan Lovren þarf að fara. Hann er leikmaður sem vill spila alla leiki og hann fær það ekki hjá Liverpool. Hann hefur verið meiddur og aðrir leikmenn hafa komið inn í hans stað og spilað frábærlega. Hann hefur þjónað Liverpool vel, þótt ég hafi gagnrýnt hann mikið á sínum tíma, en þegar allt kemur til alls þá hefur hann þjónað þessu félagi frábærlega,“ sagði Nicol ennfremur.

mbl.is