Birkir líklega ekki með í 27 milljarða leik

Birkir Bjarnson er með samning við Aston Villa sem gildir …
Birkir Bjarnson er með samning við Aston Villa sem gildir til sumarsins 2020. Ljósmynd/avfc.co.uk

Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, fagnar 31 árs afmæli sínu í dag en í dag ræðst einnig hvort lið hans, Aston Villa, fær aftur sæti í ensku úrvalsdeildinni eftir þrjú ár í næstefstu deild.

Aston Villa og Derby mætast á Wembley kl. 14 í dag í leik sem BBC segir metinn svo verðmætan að hann tryggi sigurvegurunum 170 milljónir punda, jafnvirði um 27 milljarða króna, í gegnum allar þær tekjur sem fylgi því að komast í úrvalsdeildina. Um er að ræða úrslitaleikinn í umspilinu í ensku B-deildinni, en liðin fjögur í 3.-6. sæti komast í það umspil. Derby sló út Leeds United og Villa sló út West Bromwich Albion á leiðinni á Wembley.

Síðustu fjóra mánuði hefur Birkir aðeins leikið samtals 16 mínútur með Villa og hann var ekki í leikmannahópi liðsins í leikjunum tveimur við WBA í undanúrslitum umspilsins. Lítið sem ekkert er um meiðsli í leikmannahópi Villa, Axel Tuanzebe hefur til að mynda jafnað sig af meiðslum í seinni leiknum við WBA, og því virðist ólíklegt að Birkir verði í leikmannahópi Villa á Wembley.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert