United og City berjast um Maguire

Harry Maguire verður eftirsóttur í sumar.
Harry Maguire verður eftirsóttur í sumar. AFP

Manchester liðin United og City munu berjast um knattspyrnumanninn Harry Maguire en bæði lið vilja kaupa varnarmanninn enska frá Leicester í sumar.

Maguire var eftirsóttur af Manchester United í fyrra og þá er hann talinn ofarlega á óskalista City yfir mögulega arftaka Vincent Kompany sem sneri heim til Belgíu eftir farsæl ár sem fyrirliði liðsins. Leicester er þó ekki talið ýkja áhugasamt um að selja og eru allar líkur á að hann færi fyrir metfé samkvæmt heimildum Sky Sports.

Liverpool keypti Virgil van Dijk af Southampton á síðasta ári á 75 milljónir punda og er hann enn til þessa dýrasti varnarmaðurinn í sögunni. Ole Gunnar Soskjær, stjóri United, vill byggja nýtt lið og nota í það góðan kjarna af enskum leikmönnum en City sér Maguire sem fullkomin staðgengil fyrir Kompany.

Maguire er 26 ára og hefur spilað 76 leiki fyrir Leicester á tveimur árum en þar áður spilaði hann með Wigan og Hull, bæði í úrvalsdeildinni og B-deildinni.

mbl.is