Chelsea þarf að borga vel fyrir Lampard

Frank Lampard.
Frank Lampard. AFP

Forráðamenn Chelsea munu þurfa að punga út góðri upphæð til þess að leysa Frank Lampard undan samningi sem knattspyrnustjóri Derby, en Lampard hefur verið orðaður við stjórastöðuna á Stamford Bridge.

Talið er að Chelsea þurfi að borga um fjórar milljónir punda, jafnvirði rúmlega 637 milljóna króna, til þess að fá Lampard lausan. Hann er talinn efstur á blaði sem arftaki Maurizio Sarri, sem virðist vera að taka við Juventus eftir eitt ár með Chelsea.

Samkvæmt BBC hefur Chelsea þó ekki enn hafið viðræður við Derby, en fregnir herma að félagið vilji ekki sleppa Sarri fyrr en eftirmaður er fundinn. Lampard á tvö ár eftir af samningi sínum við Derby.

Lampard er goðsögn hjá Chelsea, en hann var leikmaður þar í 13 ár og vann 11 titla á þeim tíma.

mbl.is