Liverpool að selja Salah?

Mohamed Salah er orðaður við brotthvarf frá Liverpool í frönskum …
Mohamed Salah er orðaður við brotthvarf frá Liverpool í frönskum fjölmiðlum í dag. AFP

Franski miðillinn Le10 Sport greinir frá því í dag að Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sé opinn fyrir því að selja Mohamed Salah, sóknarmann liðsins, í sumar. Salah kom til Liverpool frá Roma, sumarið 2017, og hefur verið einn besti leikmaður liðsins síðan þá.

Le10 Sport greinir frá því að Klopp vilji fá Nicolas Pépé frá Lille í sumar og sé tilbúinn að láta Salah fara til þess að fjármagna kaupin á Pépé. Salah var sterklega orðaður við Real Madrid síðasta sumar en ákvað að halda kyrru fyrir á Anfield.

Salah var markahæsti leikmaður Liverpool og ensku úrvalsdeildarinnar á sínu fyrstu tímabili með liðinu og þá var hann einnig markahæsti leikmaður deildarinnar í ár, ásamt Sadio Mané,  samherja sínum hjá Liverpool, og Pierre-Emerick Aubameyang, framherja Arsenal.

Salah er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Liverpool og því óvíst hvernig brotthvarf Egyptans myndi fara í hörðustu stuðningsmenn liðsins en Salah hefur skorað alls 54 mörk í 74 leikjum fyrir félagið sem borgaði Roma 38 milljónir punda fyrir Salah.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert