Mun enginn borga uppsett verð

Ryan Fraser átti frábært tímabil með Bournemouth og lagði upp …
Ryan Fraser átti frábært tímabil með Bournemouth og lagði upp 14 mörk í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Ryan Fraser, sóknarmaður Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, er eftirsóttur af stærri liðum eftir frábært tímabil með liðinu í vetur. Fraser skoraði sjö mörk í 38 leikjum með Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni og þá lagði hann upp önnur 14 og var næststoðsendingahæstur á eftir Eden Hazard.

Fraser hefur meðal annars verið orðaður við lið á borð við Arsenal og Manchester United en Bournemouth vill fá 30 milljónir punda fyrir Skotann. „Ef ég á að vera alveg hreinskilinn held ég að það muni enginn borga uppsett verð fyrir mig,“ sagði Fraser í samtali við skoska fjölmiðla. „Ég ræddi síðast framtíð mína við félagið fyrir sex mánuðum þannig að ég veit ekki hver staðan er í dag.

Ef eitthvað gerist þá gerist það og ef ekki þá er það bara þannig. Ég mun halda áfram að gera mitt allra besta fyrir Bournemouth en ég fylgist líka með fréttum og hef séð að ég er orðaður við önnur félög. Ég á ár eftir af samningi mínum við Bournemouth og ef ekkert gerist verð ég hérna áfram. Ég vil bara spila fótbolta og hvar sem ég enda mun ég alltaf gera mitt besta,“ sagði Fraser ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert