Lampard fær að minnsta kosti tvö ár

Frank Lampard er að taka við knattspyrnustjórastöðunni hjá sínu fyrrverandi …
Frank Lampard er að taka við knattspyrnustjórastöðunni hjá sínu fyrrverandi félagi Chelsea. AFP

Frank Lampard verður næsti knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Lampard tekur við liðinu af Maurizio Sarri sem er að taka við ítalska stórliðinu Juventus á Ítalíu.

Lampard þekkir vel til hjá Chelsea en hann spilaði með liðinu í þrettán ár og er í guðatölu hjá stuðningsmönnum liðsins. Enskir fjölmiðlar greina frá því að Lampard hafi gert munnlegt samkomulag við Roman Abramovich, eiganda Chelsea, um að hann fái að minnsta kosti tvö ár til þess að byggja upp lið hjá félaginu.

Fyrrverandi knattspyrnustjórar Chelsea í gegnum tíðina hafa ekki fengið mikinn tíma til þess að byggja upp lið sitt í eigandatíð Abramovich en Sarri tók til að mynda við liðinu síðasta sumar og lenti nokkrum sinnum upp á kant við rússneska eigandann á þessu tímabili.

Lampard tók við liði Derby County í ensku B-deildinni fyrir síðustu leiktíð og fór með liðið alla leið í umspil um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni á sínu fyrsta tímabili sem knattspyrnustjóri. Derby vill alls ekki missa Lampard og er tilbúið að bjóða honum nýjan samning en enskir miðlar fullyrða að Lampard sé á förum til að taka við Chelsea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert