Saka stjórann um græðgi og neita að semja

Lee Bowyer er farinn frá Charlton.
Lee Bowyer er farinn frá Charlton. Ljósmynd/Heimasíða Charlton

Lee Bowyer gerði það gott sem leikmaður með liðum á borð við Leeds, Newcastle og Birmingham á sínum tíma. Hann tók við stjórn Charlton í ensku C-deildinni fyrir síðustu leiktíð og kom liðinu óvænt upp um deild. 

Charlton hefur gengið í gegnum ýmislegt undanfarin ár og er félagið í miklum fjárhagserfiðleikum. Því var ekki búist við að Bowyer færi með liðið upp um deild. Charlton vann hins vegar Sunderland í úrslitum umspilsins og tryggði sér sæti í ensku B-deildinni. 

Þrátt fyrir það mun Bowyer yfirgefa félagið þar sem hann komst ekki að samkomulagi við forráðamenn þess um framlengingu. Charlton greindi frá þessu með furðulegri yfirlýsingu á vefsíðu sinni í dag. 

Hún er svo hljóðandi: 

Charlton Athletic hefur ekki tekist að endursemja við Lee Bowyer og er hann nú samningslaus. 

Það hjálpaði ekki að félagið er til sölu. Núverandi eigandi gerir sér grein fyrir því að nýr eigandi gæti viljað ráða sinn eigin stjóra. Þrátt fyrir það var Bowyer boðinn nýr eins árs samningur. Félagið verður selt á næstu vikum og að gefa honum lengri samning væri ekki góð hugmynd. 

Félagið er líka að tapa peningum og er það ein ástæða þess að illa hefur gengið að selja það. Nú fer mikil orka í að minnka allan kostnað og getum við því lítið hækkað laun. 

Launin sem við buðum Lee eru þrefalt hærri en þau sem hann var með og sexfalt hærri en launin hans þegar hann var aðstoðarþjálfari 2017. Auk þess eru þau helmingi hærri en nokkur stjóri hjá Charlton hefur verið með að undanskildum árunum í ensku úrvalsdeildinni. Við höfðum því mikinn áhuga á að halda honum, en Lee vildi mikið hærri laun. 

Eigendurnir skilja Lee, því margir stjórar í B-deildinni eru á mjög háum launum. Lee finnst hann eiga skilið að þéna það sama og margir aðrir stjórar í sömu deild. Meðalfélag í ensku B-deildinni tapar hins vegar 15 milljónum punda á hverju ári. Eigendurnir þar eru klikkaðir. 

Þess vegna komumst við ekki af samkomulagi. Lee vildi að umboðsmaður myndi ræða við okkur frekar en hann sjálfur. Við samþykktum það, en umboðsmaðurinn hann sérhæfir sig í samningamálum leikmanna og því gekk þetta ekki upp. Ef umboðsmaðurinn hjálpar stjóranum að þéna meira, gæti stjórinn komið betur fram við leikmenn sem eiga sama umboðsmann. 

Félagið hefur ekki skoðað aðra stjóra og það ætlar ekki að ráða annan stjóra til frambúðar, þar til það verður selt. Við munum ráða einhvern á tímabundnum samningi á meðan annað starfsfólk heldur áfram að undirbúa komandi tímabil. 

Ef Lee skiptir um skoðun er honum velkomið að koma aftur og halda áfram að stýra liðinu. Nú er hins vegar mikilvægast að selja félagið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert