Stuðningsmenn Man. Utd. oftast handteknir

Stuðningsmenn Manchester United fagna marki.
Stuðningsmenn Manchester United fagna marki. AFP

Stuðningsmenn Manchester United voru þeir stuðningsmenn sem oftast voru handteknir vegna rasisma í kringum knattspyrnuleiki á Englandi á árunum 2014 til 2018. Alls voru 27 stuðningsmenn félagsins handteknir fyrir slík brot. 

Leeds og Millwall, sem leika í B-deildinni koma þar á eftir með 14 handtökur og Chelsea með 13. Talsmaður Manchester United segir þetta afar lítinn minnihluta stuðningsmanna, enda rúmlega 70.000 manns á hverjum heimaleik United. 

„Rasismi á sér enga stoð í leiknum okkar, né í samfélaginu í heild. Við leggjum okkar af mörkum við að hafa knattspyrnu fordómalausa. 0,0004 prósent stuðningsmanna okkar hafa verið handtekin fyrir rasisma og við gerum ávallt okkar besta til að finna sökudólgana.“

Á tímabilinu 2014-15 voru alls 107 handtökur vegna rasisma í kringum knattspyrnuleiki á Englandi og 114 tímabilið eftir. Talan hefur hins vegar lækkað á síðustu árum. Á þarsíðustu leiktíð voru 94 handtökur og á síðustu leiktíð aðeins 76. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert