Verður Pogba launahæstur á Englandi?

Paul Pogba gæti orðið launahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar ef hann …
Paul Pogba gæti orðið launahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar ef hann skrifar undir nýjan samning við United. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United er tilbúið að gera Paul Pogba, miðjumann liðsins, að launahæsta leikmanni ensku úrvalsdeildarinnar en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Pogba greindi frá því á dögunum að hann vildi nýja áskorun á sínum ferli en hann hefur verið sterklega orðaður við bæði Juventus og Real Madrid í sumar.

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur engan áhuga á því að missa sinn besta leikmann og ætlar United að bjóða Pogba nýjan fimm ára samning sem myndi færa honum 500.000 pund á viku en það samsvarar tæplega 80 milljónum króna á viku eða 320 milljónum íslenskra króna í mánaðarlaun.

Pogba þénar sem stendur 290.000 pund á viku hjá United og myndi hann því hækka umtalsvert í launum en hann kom til félagsins frá Juventus sumarið 2016. Pogba er langt frá því að vera allra á Old Trafford en margir stuðningsmenn United vilja losna við leikmanninn því þeim finnst hann ekki leggja sig nægilega mikið fram fyrir félagið.

Þrátt fyrir að dvöl Pogba hjá United hafi verið upp og niður var hann besti leikmaður liðsins á þessari leiktíð og skoraði 13 mörk og lagði upp önnur 9 í 35 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni. United borgaði 90 milljónir fyrir leikmanninn á sínum tíma og hefur sett 150 milljóna punda verðmiða á Pogba til þess að fæla önnur lið frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert