Everton nær samkomulagi við Barcelona

André Gomes í leik með Everton gegn Liverpool í vetur.
André Gomes í leik með Everton gegn Liverpool í vetur. AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Everton, sem Gylfi Þór Sigurðsson leikur með, hefur náð samkomulagi við spænsku meistarana í Barcelona um kaup á miðjumanninum André Gomes.

Silva var í láni hjá Everton á síðasta tímabili og vakti athygli fyrir góða frammistöðu og lagði Everton kapp á að halda honum hjá félaginu til framtíðar. Það virðist nú hafa tekist, því samkvæmt því sem Sky greinir frá þá hafa félögin náð saman um kaupverðið. Það er talið nema því sem jafngildir um 22 milljónum punda.

Gomes, sem er landsliðsmaður Portúgal, lék 27 leiki með Everton í ensku úrvalsdeildinni í vetur þar sem liðið hafnaði í 8. sæti. Hann er 25 ára gamall og hefur verið á mála hjá Barcelona frá 2016 eftir að hafa verið keyptur frá Valencia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert