Scholes refsað fyrir að veðja á leiki

Paul Scholes í búningi Manchester United.
Paul Scholes í búningi Manchester United. AFP

Paul Scholes, fyrrverandi leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, hefur verið sektaður af enska knattspyrnusambandinu fyrir brot á veðmálareglum þess.

Scholes, sem nú er 44 ára gamall, á hlut í D-deildarliðinu Salford City og þá var hann stjóri Oldham í rúman mánuð fyrr á þessu ári. Samkvæmt reglum sambandsins mega þeir sem taka þátt í knattspyrnu á einhvern hátt ekki veðja á leiki.

Scholes á að hafa veðjað 140 sinnum á leiki á árunum 2015-2019 og hefur verið sektaður um átta þúsund pund. Þá fékk hann jafnframt aðvörun svo ef hann verður uppvís að veðmáli á ný verður refsingin þyngri.

„Ég vil biðjast afsökunar og ég tek fulla ábyrgð á gjörðum mínum. Þetta voru mistök og ég ætlaði ekki að brjóta reglur vísvitandi. Ég ranglega taldi að þar sem ég hefði engar beinar tengingar við umrædda leiki mætti ég veðja á þá. Ég skil núna að það er ekki svo og ég hefði átt að fullvissa mig um það áður,“ sagði Scholes.

Í rökstuðningi knattspyrnusambandsins segir að Scholes hafi veðjað átta sinnum á leiki með Manchester United á þeim tíma sem Ryan Giggs og Nicky Butt voru í störfum hjá félaginu. Þá veðjaði hann á leiki með Valencia þegar Gary Neville var stjóri liðsins. Þeir Neville, Giggs og Butt eru meðeigendur Scholes hjá Salford.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert