United í viðræðum við Napoli

Elseid Hysaj (4) í baráttunni á Laugardalsvelli 8. júní síðastliðinn.
Elseid Hysaj (4) í baráttunni á Laugardalsvelli 8. júní síðastliðinn. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur sett sig í samband við Napoli vegna hugsanlegra kaupa enska liðsins á Elseid Hysaj en það er Sky á Ítalíu sem greinir frá þessu.

Hysaj er 25 ára gamall albanskur hægri bakvörður en hann var fyrirliði Albaníu sem mætti íslenska landsliðinu á Laugardalsvelli í undankeppni EM 8. júní síðastliðinn.

Verðmiðinn á leikmanninn er í kringum 20 milljónir punda en hann er samningsbundinn Napoli til sumarsins 2021. Hysaj gaf það sjálfur út á dögunum að hann hefði áhuga á því að reyna fyrir sér annarsstaðar en hann hefur leikið með liði Napoli frá árinu 2018 og á að baki 132 leiki fyrir félagið í öllum keppnum.

United leitar sér að hægri bakverði þessa dagana en enska félagið hefur verið sterklega orðað við Aaron Win-Bissaka, bakvörð Crystal Palace. Palace hefur nú þegar hafnað tveimur tilboðum United í leikmanninn en Palace vill fá í kringum 50 milljónir punda fyrir leikmanninn sem er einungis 21 árs gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert