Origi verður ekki seldur

Divock Origi fagnar marki sínu gegn Tottenham í úrslitum Meistaradeildarinnar.
Divock Origi fagnar marki sínu gegn Tottenham í úrslitum Meistaradeildarinnar. AFP

Divock Origi, framherji enska knattspyrnufélagsins Liverpool, verður ekki seldur frá félaginu í sumar en það er ESPN sem greinir frá þessu. Origi verður samningslaus hjá Liverpool næsta sumar og hefur Belginn ekki framlengt samning sinn við félagið.

Þrátt fyrir það ætlar Jürgen Klopp að taka áhættu og halda honum hjá félaginu eftir mjög góða frammistöðu með Liverpool á seinni hluta tímabilsins. Origi skoraði þrjú mörk í Meistaradeildinni í vetur, tvö gegn Barcelona í undanúrslitum og eitt í úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn Tottenham, og er afar vinsæll hjá stuðningsmönnum Liverpool þessa stundina.

Liverpool hefur boðið Origi nýjan samning en leikmaðurinn hefur ekki ennþá skrifað undir. Origi kom til Liverpool frá Lille í Frakklandi árið 2014 en var lánaður aftur til Lille tímabilið 2014-2015. Hann á að baki 63 leiki fyrir Liverpool í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 15 mörk og þá á hann að baki 25 landsleiki fyrir Belgíu þar sem hann hefur skorað 3 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert