Ranieri tilbúinn að taka við Newcastle

Claudio Ranieri er tilbúinn að snúa aftur til Englands.
Claudio Ranieri er tilbúinn að snúa aftur til Englands. AFP

Claudio Ranieri er opinn fyrir því að taka við enska knattspyrnufélaginu Newcastle en það er Sky Sports sem greinir frá þessu í dag. Ranieri er án starfs í dag en hann stýrði síðast liði Roma í ítölsku A-deildinni en liðið endaði í sjötta sæti deildarinnar á þessari leiktíð og missti af Meistaradeildarsæti. 

Newcastle tilkynnti í gær að Rafael Benítez yrði ekki knattspyrnustjóri liðsins á næstu leiktíð en samningur hans við félagið rennur út um mánaðamótin. Newcastle leitar því að nýjum knattspyrnustjóra en Ranieri þekkir vel til á Englandi en hann stýrði síðast liði Fulham í ensku úrvalsdeildinni í fjóra mánuði áður en hann var rekinn í febrúar á þessu ári.

Þá hefur hann einnig stýrt Chelsea og Leicester City á Englandi en hann gerði Leicester að Englandsmeisturum tímabilið 2016-2017. Ranieri er 67 ára gamall Ítali en hefur meðal annars stýrt liðum á borð við Atlético Madrid, Valencia, Juventus, Inter Mílanó og Mónakó á sínum ferli.

mbl.is