Hefur ekki áhuga á níunda sætinu

José Mourinho leitar sér að nýju liði eftir að hafa …
José Mourinho leitar sér að nýju liði eftir að hafa verið rekinn frá Manchester United í desember á síðasta ári. AFP

José Mourinho, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, hefur ekki áhuga á því að taka við liði Newcastle eins og sakir standa en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Mourinho hefur verið orðaður við knattspyrnustjórastöðuna hjá Newcastle að undanförnu en Rafael Benítez ákvað að framlengja ekki samning sinn við félagið í vikunni og því leitar Newcastle að nýjum knattspyrnustjóra.

„Það eina sem ég veit er hvað ég vil ekki gera. Ég fer í alla leiki til þess að vinna og ef það tekst ekki bitnar það á öllu félaginu. Ég þarf og vil taka við félagi sem vill vinna og búa til ákveðna sigurhefð. Ef eitthvað félag myndi bjóða mér mjög góðan, tíu ára samning, þar sem markmiðið væri að enda í sjöunda, áttunda eða jafnvel níunda sæti þá er það ekki eitthvað sem ég hef áhuga á.“

„Það hefur alla tíð verið mitt markmið sem knattspyrnustjóri að vinna titla og berjast á toppnum,“ sagði Mourinho í samtali við The Coaches' Voice. Mourinho hefur verið orðaður við fjölda liða að undanförnu en hann var meðal annars sterklega orðaður við stjórastöðuna hjá Lyon í frönsku 1. deildinni í vetur. Portúgalinn greindi hins vegar frá því í síðustu viku að hann hefði áhuga á því að taka við landsliði í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert