Samkomulag í höfn

Aaron Wan-Bissaka.
Aaron Wan-Bissaka. AFP

Manchester United hefur náð samkomulagi við Crystal Palace um kaupin á bakverðinum Aaron Wan-Bissaka. Enskir fjölmiðlar greina frá þessu.

United hefur verið að eltast við Bissaka síðustu vikurnar og hefur Crystal Palace hafnað nokkrum tilboðum frá Manchester-liðinu í leikmanninn en að því er enskir fjölmiðlar greina frá hafa nú liðin komist að samkomulagi um að United greiði 50 milljónir punda fyrir leikmanninn eða sem samsvarar tæpum 8 milljörðum króna.

Reiknað er með að Bissaka, sem er 21 árs gamall, fari í læknisskoðun hjá Manchester United á næstu dögum og muni í kjölfarið skrifa undir langtímasamning við félagið sem tryggir honum 100 þúsund pund í vikulaun en sú upphæð jafngildir 15,9 milljónum króna.

Bissaka er uppalinn hjá Crystal Palace og lék fyrst með aðalliði félagsins árið 2017. Hann á baki þrjá leiki með U21 ára liði Englendinga.

mbl.is