Verður Costa liðsfélagi Gylfa?

Diego Costa.
Diego Costa. AFP

Spænski framherjinn Diego Costa gæti verið á leiðinni í ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu á nýjan leik.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að Costa gæti verið á leið til Everton frá spænska liðinu Atlético Madrid. Everton hefur verið á höttunum eftir framherja í sumar og Costa hefur verið nefndur til sögunnar sem mögulegur valkostur.

Costa var öflugur með Chelsea og skoraði 52 mörk í 89 deildarleikjum með liðinu frá 2014 til '17 en hann sneri aftur til Atlético Madrid fyrir einu og hálfu ári. Atlético Madrid hefur í sumar fengið til liðs við sig framherjana Alváro Morata og ungstirnið Joao Felix og þar með gæti Costa verið á förum frá Madridarliðinu.

mbl.is