Wilson framlengdi við Bournemouth

Callum Wilson í leik með enska landsliðinu í Þjóðadeildinni.
Callum Wilson í leik með enska landsliðinu í Þjóðadeildinni. AFP

Callum Wilson skrifaði undir fjögurra ára samning við enska knattspyrnufélagið Bournemouth í dag en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins. Samningurinn gildir til ársins 2023 en Wilson er 27 ára gamall framherji.

Hann hefur leikið með Bournemouth frá árinu 2014 þegar félagið keypti hann af Coventry. Wilson byrjaði 29 leiki í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð þar sem hann skoraði 14 mörk en hann var meðal annars orðaður við Tottenham og Arsenal fyrr í sumar.

Wilson lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir England á síðasta ári og er kominn með þrjá leiki með liðinu.

mbl.is