Segir Mané að fara til Real Madrid

Sadio Mané átti frábært tímabil með Liverpool á síðustu leiktíð.
Sadio Mané átti frábært tímabil með Liverpool á síðustu leiktíð. AFP

Formaður senegalska knattspyrnusambandsins Saer Seck hefur hvatt Sadio Mané, fyrirliða landsliðsins og sóknarmann Liverpool, til þess að fara til Real Madrid í sumar. Mané var sterklega orðaður við Real Madrid síðasta sumar en skiptin eru sögð hafa dottið upp fyrir sig þar sem að Zinedine Zidane hætti nokkuð óvænt með liðið.

Zidane er hins vegar tekinn aftur við stjórnartaumunum hjá Real Madrid og Mané er enn á ný orðaður við spænska stórliðið. „Það vita það allir sem fylgjast með fótbolta að Mané er á meðal tíu bestu knattspyrnumanna heims,“ sagði Seck í samtali við enska fjölmiðla. „Hann hefur náð frábærum árangri með Liverpool og hann myndar ógnarsterkt sóknarpar með Salah og Firmino.“

„En svona virkar fótboltinn stundum og hann vann Meistaradeildina með Liverpool á síðustu leiktíð og fær nú tækifæri til þess að fara til Real Madrid. Fyrir mér er Real Madrid stærsta félag heims, jafnvel þótt ég haldi með Barcelona, og þetta er tilboð sem Mané ætti að íhuga alvarlega. Ferill knattspyrnumanna er ekki langur og menn þurfa stundum að vera fljótir að grípa tækifærið,“ sagði Seck. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert