Trippier á leiðinni til Spánar

Kieran Trippier í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð.
Kieran Trippier í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð. AFP

Enski landsliðsmaðurinn Kieran Trippier er á leiðinni til spænska liðsins Atlético Madríd frá Tottenham. Tottenham hefur gefið bakverðinum leyfi til að ferðast til Spánar og ræða kaup og kjör við Atlético. Félögin komust að samkomulagi um 20 milljón punda kaupverð. 

Trippier var lykilmaður í enska landsliðinu sem komst alla leið í undanúrslit á HM í Rússlandi á síðasta ári. Hann átti hins vegar erfitt síðasta tímabil með Tottenham og knattspyrnustjórinn Mauricio Pochettino er reiðubúinn að selja leikmanninn. 

Atlético er í leit að eftirmanni Juanfran, sem yfirgaf félagið á dögunum. Trippier átti að fljúga með Tottenham til Singapúr, þar sem hluti undirbúningstímabilsins fer fram hjá leikmönnum liðsins. Nú er hins vegar ljóst að Trippier ferðast ekki með liðinu. 

Fari svo að Trippier yfirgefi Tottenham verða Serge Aurier og Kyle Walker-Peters einu hægri bakverðir liðsins. Félagið hefur áhuga á Ryan Sessegnon, leikmanni Fulham, sem getur leiktið sem hægri bakvörður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert