Bruce fær 90 milljónir til leikmannakaupa

Steve Bruce fær peninga til að kaupa leikmenn.
Steve Bruce fær peninga til að kaupa leikmenn. AFP

Steve Bruce, nýráðinn knattspyrnustjóri Newcastle, fær 90 milljónir punda til leikmannakaupa. Bruce skrifaði undir þriggja ára samning við Newcastle og tekur hann við af Rafa Benítez. 

Spánverjinn ákvað að framlengja ekki samning sinn við Newcastle, þar sem deilur voru á milli hans og forráðamanna félagsins. Þrátt fyrir það fær Bruce mikið fé til leikmannakaupa að sögn Sky Sports. 

„Newcastle ætlaði að taka frá 50 milljónir punda fyrir leikmannakaup, en svo bætast við 40 milljónir vegna sölu á Ayoze Pérez og 11 milljónir frá síðasta félagsskiptaglugga. Það eru því um 90 milljónir til leikmannakaupa til hjá félaginu,“ sagði Rob Dorsett blaðamaður hjá Sky. 

Newcastle hefur verið orðað við brasilíska framherjann Joelinton hjá Hoffenheim. Hann er 22 ára og var ekki með Hoffenheim í æfingaleik í dag, þar sem hann er í viðræðum við enskt félag. 

Newcastle þyrfti að reiða fram um 36 milljónir punda fyrir Joelinton og yrði hann dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins. Newcastle keypti Miguel Almiron á 21 milljón punda í janúar og er hann sá dýrasti sem stendur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert