Úlfarnir völtuðu yfir Newcastle

Diogo Jota að skora fyrir Úlfana í dag.
Diogo Jota að skora fyrir Úlfana í dag. AFP

Wolves vann 4:0 sigur gegn Newcastle en ensku úrvalsdeildarliðin áttust við í fyrsta leiknum í Asíubikarnum í Nanjing í Kína í dag.

Úlfarnir gengu frá leiknum í fyrri hálfleik. Diogo Jota skoraði fyrsta markið á 15. mínútu, Morgan Gibbs-White bætti við öðru á 32. mínútu og Diogo Jota var aftur á ferðinni á 42. mínútu.

Til að bæta gráu ofan á svart fyrir Newcastle varð hinn ungi Thomas Allan fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 85. mínútu. Wolves var nær því að bæta við fleiri mörkum en Newcastle að minnka muninn og það er ljóst að Steve Bruce bíður erfitt verk fyrir höndum en hann var í morgun ráðinn knattspyrnustjóri Newcastle.

Leikurinn var sýndur í beinni útsendingu á Símanum Sport sem sýnir einnig viðureign Englandsmeistara Manchester City og West Ham klukkan 12.30. Á laugardaginn mætast sigurliðin í leikjum dagsins í úrslitaleiknum og tapliðin spila um þriðja sætið og verða þeir leikir einnig sýndir í beinni útsendingu á Símanum Sport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert