Stór auglýsingabrella hjá Huddersfield

Treyjurnar sem Huddersfield kynnti til leiks í vikunni og vöktu …
Treyjurnar sem Huddersfield kynnti til leiks í vikunni og vöktu mikla athygli. Ljósmynd/Huddersfield Town

Enska knattspyrnufélagið Huddersfield hefur vakið mikla athygli á undanförnum dögum fyrir nýjustu treyju liðsins. Merki veðmálafyrirtækisins Paddy Power er á ská yfir hálfa treyjuna, en treyjan fékk vægast sagt slæm viðbrögð frá bæði stuðningsmönnum félagsins sem og öðrum knattspyrnuáhugamönnum.

Þá var einnig greint frá því að félagið gæti fengið refsingu frá enska knattspyrnusambandinu, þar sem treyjan daðrar við að vera ólögleg. Auglýsingar á treyjum innan Englands mega aðeins vera framan á búningum og þá mega þær ekki taka mikið pláss, en Huddersfield lék æfingaleik í nýju treyjunni gegn Rochdale í vikunni.

Í dag tilkynnti Huddersfield svo að um blekkingu hefði verið að ræða og að félagið ætlaði sér að leika í ómerktum búningum á næstu leiktíð. Paddy Power er hins vegar einn af styrktaraðilum félagsins og með auglýsingabrellunni fékk fyrirtækið auglýsinguna sem það borgaði fyrir. Þrátt fyrir þetta á Huddersfield að öllum líkindum von á sekt frá enska knattspyrnusambandinu.

mbl.is